Hamingjan eflir heilsuna

Jákvæð sálfræði hefur nú rutt sér mjög til rúms og njóta viðfangsefni hennar samanber núvitund (e. mindfulness) vaxandi fylgis þeirra sem huga heildrænt að heilsu sinni og vellíðan. Hér fjallar Borghildur Sverrisdóttir sálfræðingur um ýmsa þætti jákvæðrar sálfræði og hvaða jákvæðu áhrif leiðir hennar geta haft á líf okkar, svo sem andlega og líkamlega heilsu.

 

Bókarkápa

Bók eftir Borghildi Sverrisdóttur

 

Jákvæð sálfræði er ný fræðigrein sem beinir athyglinni að vellíðan, sátt og hamingju einstaklinga og þjóða. Áherslan er á það sem er í lagi, það sem einkennir þá sem eru sáttir og sælir, heilbrigði, styrkleika, velgengi og leiðir sem gagnast til að auka hamingju í lífi okkar. Það hefur verið sterk tilhneiging í fræðunum að staldra við  vandamál og frávik, og það sem aflaga fer eða gæti farið svo, sbr. forvarnir.  Jákvæða sálfræðin kynnir hins vegar til sögunnar heilbrigðismódelið, sem mótvægi við sjúkdómsmódelið.  Það sýnir sig að áhersla á styrkleika gefur betri raun en áhersla á veikleika, að afstaða og hugarfar skiptir sköpum fyrir líðan og hamingju fólks, að hamingja sé að litlu eða engu leiti háð ytri aðstæðum, að einstaklingar geti hæglega aukið hamingju sína og styrkt hamingjusvæðin í heilanum.

Samkvæmt jákvæðri sálfræði er hamingjan „alsherjar upplifun ánægju og merkingar“.  Ánægja er að upplifa jákvæðar tilfinningar hér og nú og njóta líðandi stundar. Merking er að finna tilgang og njóta góðs af gerðum okkar í nútíð og framtíð.

Hamingjufræðin fjalla um líðan og hamingju venjulegs fólks í daglegu lífi en viðfangsefni þeirra eru t.d. sjálfsmynd, sambönd, heilbrigði, farsæld, vellíðan og ástríða.  Áhersla er lögð á hagnýt fræði sem gagnast venjulegu fólki til að bæta lífi sitt og líðan.

„Know thyself“ sagði Sókrates á sínum tíma og það sýnir sig í seinni tíma rannsóknum að sjálfsþekking er mikilvæg forsenda hamingjunnar.  Það eru nefnilega ekki ytri aðstæður sem ráða því hvernig okkur líður heldur okkar innri maður.  Persónulegir þættir eins og afstaða okkar og hugarfar skiptir sköpum fyrir líðan okkar.  Það er því gott til þess að vita að við getum endurskoðað afstöðu okkar og hugarfar, öðlast hugarró og sátt.

Núvitund merkir „að vera til staðar á líðandi stund í vinsemd og sátt“ en samkvæmt rannsóknum gagnast núvitund til að bæta líðan og auka hamingju, losna undir valdi hugsana, þekkja líðan sína og viðbrögð, minnka streitu og kvíða, bæta heilsu og styrkja ónæmiskerfið, njóta líðandi stundar, styrkja jákvæðnisvæðin í heilanum.

Eftirfarandi 10 hamingjuráð eru kynnt í bókinni „Meiri hamingja“ (Happier) eftir Dr. Tal Ben-Shahar, sem byggir á rannsóknum jákvæðrar sálfræði:

  1. Núvitund – sjálfsvitund:  Er leið til að kyrra hugann og kynnast sjálfum sér.  Núvitund miðlar afstöðu sáttar og vinsemdar í eigin garð og annarra.  Núvitund vinnur gegn streitu, pirringi og verkjum og styrkir ónæmiskerfið og jákvæðnisvæðin í heilanum.
  2. Þakklæti breytir hugarfarinu: Það er hægt að stilla hugann inn á jákvæðar bylgjulengdir og beina athyglinni að því sem er í lagi og er jákvætt og gott í lífi okkar.  Það gefur góða raun að skrá hjá sér 5 atriði á dag sem þakka má fyrir.
  3. Góðar venjur – fastir siðir:  Góðar venjur veita sjálfsvirðingu og frelsi. Venjur þurfa að grundvallast á djúpstæðum gildum. Við þurfum að skilgreina ákveðna hegðun og fastsetja stað og stund. Það tekur 21 dag að tileinka sér nýja venju.
  4. Lærðu að mistakast – annars mistekst þér að læra: Mikilvægt er að taka áhættu og óttast ekki mistök.  Við lærðum að ganga með því að gera margar misheppnaðar tilraunir.
  5. Ekki fresta hamingjunni:  Forgangsraðaðu því sem vekur góðar tilfinningar.  Góð tengsl,  skemmtun, gleði og hlátur gerir okkur gott í nútíð og framtíð.  Veldu þér félagsskap, tónlist, umhverfi og viðfangsefni sem vekja hjá þér vellíðan.
  6. Minna er meira:  Ekki gera margt í einu heldur njóttu þess sem þú gerir með fullri athygli.
  7. Hreyfing er eðlileg: Að hreyfa sig ekki er ávísun á heilsuvanda. Gerðu hreyfingu að daglegri venju og finndu hreyfingu sem þér finnst skemmtileg.
  8. Leyfðu þér að vera mannleg(ur): Það er mikilvægt að gangast við sárum tilfinningum eins og ótta, sorg, öfund og reiði.  Streðið við halda slíkum tilfinningum í skefjum veldur mestri þjáningu og kallar á flóttaleiðir og fíknir.  Mikilvægt er að tjá sárar tilfnningar í tali eða skrifum.
  9. Heilindi og gildi:  Það er mikilvægt að þekkja gildin sín og haga sér samkvæmt þeim. Heilsteypt manneskja lætur orð og gjörðir fylgjast að.  Hrein samviska eflir sjálfsvirðingu okkar.
  10. Að gefa af sér: Þeir sem eru hamingjusamir eiga það sameiginlegt að eiga auðvelt með að leggja gott til annarra. Hugarfarið verður jákvæðara við það að beina athyglinni frá eigin þörfum og vera vakandi fyrir því sem maður getur lagt af mörkum t.d. að tína rusl af gangstéttinni og gera öðrum gott án þess að vænta neins á móti.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: