Paris Jackson segir athyglina of mikla
Paris Jackson er vinsæl fyrirsæta og söngkona um þessar mundir. Álagið sem fylgir því að vera fræg er mikið að hennar mati
Börn fræga fólksins koma reglulega fram í fjölmiðlum þar sem þau útskýra álagið sem fylgir því að vera barn í sviðljósinu. Paris Jackson er ein þeirra. Jackson hefur verið að vinna að því að undanförnu að byggja sig upp andlega og líkamlega. Page Six greinir frá því að hún hafi glímt við þunglyndi og kvíða, sjálfsvígshugsanir og sjálfsskaðandi hegðun frá því hún var unglingur.
Hún innritaði sig í meðferð við andlegum veikindum í upphafi þessa árs en er nú útskrifuð þaðan. Hún hefur greint frá því að nú sé hún minna á samfélagsmiðlum en áður, hafi minnkað við sig vinnu og reyni að halda álaginu í lífinu í lágmarki.
Paris Jackson er fædd árið 1998 og er því rúmlega tvítug að aldri. Hún starfar sem leikkona, söngkona og fyrirsæta. Hún er einkadóttir Michael Jackson og Debbie Rowe. Faðir hennar fékk fullt forræði yfir henni. Hún ólst því upp á Neverland-búgarðinum, ásamt bræðrum sínum tveimur. Þegar hún var að alast upp lét faðir þeirra þau ganga um með grímur til að hylja andlit þeirra, svo hægt væri að halda persónulegum einkennum þeirra frá augliti almennings og fjölmiðla.
Hún hefur verið í basli með eltihrelli að undanförnu sem hefur komist í kast við lögin út af hegðun sinni gagnvart henni. Það hefur án efa einnig haft áhrif á hana að nýverið kom út heimildarmynd um meint kynferðisofbeldi Michael Jackson, Leaving Neverland.
Categories: Uncategorized