Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær átti bara að taka tímabundið við stjórastöðunni hjá Manchester United en eftir átta sigra í fyrsta átta leikjunum aukast líkurnar með hverjum sigri að hann fái fastráðningu á Old Trafford.
Ole Gunnar Solskjær segist nú vera farinn að undirbúa Manchester United liðið fyrir næsta tímabil og segir það skipta engu máli hvort hann verði stjóri liðsins 2019-2020 eða ekki.
Það skiptir ekki máli hvort ég verð hér eða ekki. Mitt starf núna er að undirbúa liðið fyrir næsta tímabil,“ sagði Ole Gunnar Solskjær við Guardian og hluti af því verður að spila uppöldum leikmönnum eins og þeim Mason Greenwood, Jimmy Garner og Ethan Hamilton.
„Það eru nokkrir hæfileikaríkir strákar í unglingaliðinu sem við munum sjá í aðalliðinu á einhverjum tímapunkti til að undirbúa liðið fyrir næsta tímabili. Strákar eins og Mason, Jimmy, Ethan. Þetta snýst um að finna rétta tímann fyrir þá,“ sagði Solskjær.
„Þeir þurfa samt að hoppa fram fyrir menn eins Alexis [Sánchez], Juan Mata, og Romelu Lukaku sem hafa ekki spilað allt of mikið að undanförnu, “ sagði Solskjær en hann býst jafnframt ekki við að einhverjir leikmenn fari frá Manchester United í janúarglugganum.
Eins og staðan er núna þá verða allir áfram hjá félaginu. Engir samningar hafa verið gerðir en það eru nokkrir dagar eftir og þá getur vissulega eitthvað gerst. Það verður samt gott þegar glugginn lokar og við getum einblínt á það að gera leikmenn félagsins betri,“ sagði Solskjær.
Ole Gunnar Solskjær hrósar sérstaklega Andreas Pereira sem margir sáu líklega kandídat til að fara frá félaginu í janúar. „Nei ég sé hann ekki fara á láni. Andreas hefur verið frábær á æfingum síðan að ég kom. Hann er leikmaður sem ég sé spila marga leiki fram til loka tímabilsins,“ sagði Solskjær.
Næsti leikur Manchester United, sá níundi undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, verður á móti Burnley á Old Trafford annað kvöld.